Ásgarðsskóli fær varanlegt starfsleyfi! 🎉
Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að Ásgarðsskóli – skóli í skýjunum hefur nú hlotið formlegt starfsleyfi. Þessi áfangi markar upphaf nýs kafla í sögu skólans og staðfestir þá vegferð sem við höfum verið á frá upphafi. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur nú staðfest reglur um innritun og útskrift nemenda og voru þær birtar í Stjórnartíðindum þann 23. júlí 2025 en það jafngildir varanlegu starfsleyfi skólans. Samþykkt reglna um innritun og útskrift tryggir að ferlið sé gagnsætt, faglegt og réttlátt. Reglurnar leggja áherslu á vandaða stjórnsýslu, jafnræði í inntöku og öflugan stuðning við nemendur frá fyrstu skrefum til útskriftar. Þetta er ekki bara lagaleg staðfesting – þetta er einnig viðurkenning á gæðum og fagmennsku starfsins sem hefur verið unnið. Ítarlegar úttektir hafa verið unnar á starfsemi skólans og öll gögn og starfshættir skoðaðir vandlega.
Ferlið hófst þann 9. desember 2020, þegar umsókn um þróunarskólaleyfi var lögð inn til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Í maí 2021 hlaut skólinn þróunarleyfi og hóf starfsemi undir því leyfi. Frá þeim degi hefur Ásgarðsskóli starfað af miklum metnaði og með vandaðri stefnu í kennslu, þjónustu og stuðningi við nemendur. Starfsemin hefur farið fram undir þróunarleyfi í fjögur ár – allt þar til nú, að loknu skólaárinu 2024–2025, þegar starfsleyfið er komið í hús. Nýr kafli hefst nú í haust sem tryggir nauðsynlegt rekstraröryggi og festu fyrir nemendur, fjölskyldur og starfsfólk skólans.
Árangur af starfsemi skólans hefur verið vonum framar. Með þeirri faglegu nálgun sem lagt var upp með, persónumiðaðri kennslu og nánu samstarfi við nemendur og foreldra höfum við náð árangri með nemendum sem margir töldu ólíklegt að gætu blómstrað í skóla í skýjunum. Nemendur hafa sýnt framfarir sem jafnvel færustu sérfræðingar töldu ólíklegar. Foreldrar hafa ítrekað lýst ánægju sinni með námið, viðhorf kennara og starfsfólks til nemenda og þá jákvæðu reynslu sem börnin þeirra hafa öðlast í skólanum. Sveitarfélögin sem skipta við Ásgarðsskóla hafa ítrekað lýst yfir þakklæti og ánægju með þjónustuna. Að börn hafi tækifæri til þess að stunda nám í sérhæfðu námsumhverfi þar sem námskrá skólans er jafnframt sérstaklega útfærð til þess að koma til móts við þarfir allra barna er uppskrift sem virkar. Það er auk þess ekkert sem mælir gegn því að nýta námskrá og aðferðir Ásgarðsskóla - skóla í skýjunum í hefðbundnu námsumhverfi.
Allt nám í Ásgarðsskóla fer fram þannig að nemendur vinna heiman frá sér og taka þátt í kennslu í gegnum myndfundaforrit. Þetta gerir kennurum kleift að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda, óháð búsetu eða aðstæðum. Þrátt fyrir að kennslan fari fram í stafrænu umhverfi upplifa nemendur námið sem félagslega athöfn. Þeir vinna saman að verkefnum, taka þátt í umræðum og mynda tengsl sem styrkja bæði félagsfærni og sjálfstraust. Árangurinn talar sínu máli – hann er glæsilegur og sýnir að þegar skapandi lausnir og fagmennska mætast, næst árangur.
Ásgarðsskóli starfar með þjónustusamningi við Reykhólahrepp, sem hefur verið skólanum traustur bakhjarl og lykilsamstarfsaðili. Án þess trausts sem ríkt hefur á milli sveitarstjórnar Reykhólahrepps og Ásgarðsskóla stæðum við ekki á þessum tímamótum í dag.
Með starfsleyfið í höndunum getum við enn frekar einbeitt okkur að því sem við gerum best – að skapa lærdómsumhverfi sem er sveigjanlegt, persónumiðað og byggir á nýsköpun, tækni og velferð. Í vetur munum við leggja áherslu á færni kennara við að nota gervigreind og í leiðinni að efla nemendur í að skapa með gervigreind og tryggja að nemendur nýti tæknina til þess að eflast sem námsmenn og virkir lýðræðislegir þátttakendur í okkar góða samfélagi.
Við hlökkum til að taka á móti nýjum nemendum og halda áfram að byggja upp samfélag þar sem hver og einn fær að blómstra á eigin forsendum
🌟
Comments
Post a Comment